Tónsmíðavika í Garði

S.L.Á.T.U.R. vinnustofa fyrir skapandi tónlist 19.-25. júní

Tónsmíðavika S.L.Á.T.U.R. er fyrirbæri sem hefur verið haldið tvisvar áður. Árið 2007 var slík hátíð haldin á Eiðum en þar komu fram tónskáldin og tónlistarmennirnir Fred Frith, James Fulkerson og Frank Denyer auk meðlima í S.L.Á.T.U.R.. Tilgangurinn er sem fyrr að mörg tónskáld hittist í eina viku, vinni mikið og hratt, veiti hvort öðru aðhald og bæði hvatningu og gagnrýni.  Tónsmíðavika S.L.Á.T.U.R. 2011 fer fram í Garði á Suðurnesjum.  Á henni er ekki stefnt á að hafa neina kennara eða nafntogaðar persónur sem leiðbeinendur heldur verður kastljósið á þáttakenndum sjálfum.  Öll tónskáld geta sótt um, óháð aldri, kyni, þjóðerni o.s.fr.v. og dómnefnd mun velja tónskáld á faglegum forsendum þar sem tekið er tillit til menntunar jafnt sem reynslu.

Fyrirkomulagið er þannig að fólk kemur saman og semur tónlist á daginn sem er síðan leikin á kvöldin af atvinnuhljóðfæraleikurum á opnum æfingum. Auk þess halda tónskáldin kynningar á verkum sínum.  Öllum er boðið að koma á opnu æfingarnar og kynningarnar en á föstudagskvöldinu eftir fimm daga tónsmíðavinnu eru haldnir tónleikar í Garði.

Um hljóðfæraleik sér Mardiposa kvartettinn.  Meðlimir Mardiposa eru Bára Sigurjónsdóttir (tréblásturshljóðfæri), Bergrún Snæbjörnsdóttir (málmblásturshljóðfæri), Heiða Árnadóttir (rödd) og Helga Kristbjörg Guðmundsdóttir (harmónikka).  Auk hljóðfæra Mardiposa kvartettsins stendur tónskáldum til boða að smíða ný hljóðfæri í Garðinum.

Matreiðslumaður er Halldór Úlfarsson einnig þekktur sem mynd-, högg-, hljóðfæra- og þúsundþjalasmiður.

Samtök listrænt ágengra tónsmiða umhverfis Reykjavík eru samtök sem leggja áherslu á tengsl og gildi samstarfs. Einnig leggja samtökin áherslu á faglega sjálfsmenntun í samfloti við jafningja. Í samtökunum tengist fólk og auðgar hugmyndaheim hvors annars og aðstoðar hvort annað við tilraunir. Margir aðilar hafa komið inn í samtökin í gegnum tónsmíðavikurnar. Á tónsmíðavikunni getur utanaðkomandi aðili gengið inn í tilraunamennskuna, hver og einn fylgir sínum hugmyndum en lærir af öllum í kringum sig. Þetta er grasrótarstarf sem er ætlað að auka vegsemd listrænt ágengrar tónlistar á Íslandi og víðar.

Á tónsmíðavikum verða oft miklar framfarir í starfi samtakanna og einstaklingana því á þessum samkomum er margt að læra, og allir þroskast af því að fara í  gegnum róttækar tilraunir sem geta bara átt sér stað þegar fólk er lokað saman í viku.

Allir tónleikar, opnar æfingar og fyrirlestrar eða kynningar verða teknar upp og gefnar út fyrir þáttakenndur næstu tónsmíðaviku.

Umsjónamenn hátíðarinnar eru þeir Áki Ásgeirsson, Ingi Garðar Erlendsson, Magnús Jensson, Hlynur Aðils Vilmarsson, Þorkell Atlason og Guðmundur Steinn Gunnarsson.

Dagskrárdrög:

> sunnudagur (19.jún): mæting um kaffileytið, tónskáldin kynnast staðnum
>
> mánudagur (20.jún): vinnudagur, kynningar um kvöldið
>
> þriðjudagur (21.jún): vinnudagur, kynningar um kvöldið
>
> miðvikudagur (22.jún): vinnudagur, opin æfing um kvöldið,
>
> fimmtudagur (23.jún): vinnudagur, æfingar eftir hádegi, kynning um kvöldið
>
> föstudagur (24.jún): tónleikar í samkomuhúsinu
>
>
> laugardagur (25.jún): hugsanlegur auka-performans
>

 

Leave a Reply

  

  

  

You can use these HTML tags

<a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>