SLÁTURDÚNDUR á gamlárskvöld

dundur
Síðasta föstudag hvers mánaðar halda SLÁTUR samtökin óformlega tónleika sem nefnast SLÁTURDÚNDUR.

Næsta föstudag (gamlársdag) verður síðasta dúndur ársins 2010. Dúndrið hefst á klukkan 24:00 á Skólavörðuholti en mun svo færast úr stað um miðbæinn. Á þessu sérstæða dúndri verða nokkur verk leikin samtímis og/eða samhliða úr jeppabifreið sem flytur hljóðkerfi og tónskáld/flytjendur sem vinna með sprengihljóð umhverfisins í rauntíma.

Að venju gefst gestum tækifæri að ræða við tónskáldin um tónlistina.

Loftfimleikar: Jacob Wick + Eiríkur Orri gera æfingar á röri

eikijacob_wick

Trompetleikararnir Eiríkur Orri Ólafsson og Jacob Wick halda tónleik í höfuðstöðvum S.L.Á.T.U.R. á Íslandi, sunnukvöldið 12. desember klukkan 21:00.

Báðir hafa þeir fjölmarga fjöruna sopið þegar kemur að hinni dýru list og leiða nú saman lúðra sína í fyrsta sinn norðan sextugustu breiddargráðu.

Ókeypis og opið fyrir alla meðan húsrúm leyfir.

Jacob Wick er trompetleikari sem er búsettur í New York og er afar aktívur í tilraunamennsku ýmiss konar. Hann spilar reglulega með stórsveit Andrew D’Angelo og fæst þar að auki við vídeólist og hljóðlist ýmiss konar.

Eiríkur Orri Ólafsson er trompetleikari sem er búsettur í Utrecht og er afar aktívur í tilraunamennsku ýmiss konar. Hann spilaði einu sinni með stórsveit Samúels Jóns Samúelssonar og fæst þar að auki við matarlyst og tónlist ýmiss konar.

SLÁTURDÚNDUR á ný

slaturdundur-300

Lítið hefur verið dúndrað undanfarið sökum ýmissa óhjákvæmilegra uppákoma en nú verður bætt úr því. Jóla-Sláturdúndur 2010 verður haldið næsta laugardagskvöld, 4 desember klukkan 20:30 í sal SÁÁ (Efstaleiti 7).

Sláturdúndrin eru mánaðarlegir tónleikar SLÁTUR samtakanna þar sem meðlimir flytja glænýja tónlist í frjálslegu samhengi. Þar eru gjarnan flutt verk fyrir óvenjuleg hljóðfæri, með óvenjulega nótnaskrift, spunaverk, hálfsamin, alsamin eða ofsamin tónlist. Áheyrendum og tónsmiðum gefst gjarnan tækifæri að ræða tónlistina milli atriða.

Ókeypis aðgangur, fjölbreyttur boðstóll og listræn tónlist.