Nýárstónleikar

nyarstonleikar-slatur-2010

Nýárstónleikar S.L.Á.T.U.R.
Laugardaginn 8. janúar kl 20:00 í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu

Ný verk eftir Sláturmeðlimi – Fengjastrútur leikur á fundna hluti.

Fjölbreytt úrval fundinna hluta eru viðfangsefni Fengjastrúts á Nýárstónleikum Samtaka listrænt ágengra tónsmiða umhverfis Reykjavík að þessu sinni.  Fundnir hlutir hafa verið notaðir í tónlistarlegum tilgangi frá örófi alda, enda eiga flest hefðbundin hljóðfæri rætur í frumstæðum dýraafurðum, s.s. hornum, görnum, beinum, húðum og hárum.  Á tuttugustu öldinni náðu ýmsir nýlegir hljóðgjafar hlutverki hljóðfæra, oft slagverks.  Þessir hlutir eru sjaldnast smíðaðir með þann tilgang að verða efniviður í tónverk en bjóða þó uppá ríkan hljóðheim og nýja nálgun í sköpun og flutningi tónlistarinnar.

Átta tónskáld hafa nú sérstaklega samið ný verk að þessu tilefni.  Verkin eru skrifuð fyrir ýmsa hluti s.s. gosdrykkjadósir, reiðhjól og bremsuskálar.  Tónskáldin eru flest búsett í Reykjavík en þó gefst tónleikagestum tækifæri að heyra verk eftir Kristínu Þóru Haraldsdóttur, sem býr nú í Kaliforníu þar sem hún stundar nám í tónsmíðum og flutningi tilraunatónlistar auk þess að leggja rækt við Javanska þjóðdansa.  Strangt til tekið býr Páll Ivan Pálsson víðsvegar umhverfis Reykjavík en hefur dvalið á austurströnd Íslands undanfarið.  Unnendur listrænt ágengrar tónlistar munu án efa gleðjast að geta barið tónlist Páls eyrum á nýjan leik.  Af Reykvískt búsettu tónskáldunum er Ingi Garðar Erlendsson þeirra ferskarstur.  Hann er nýfluttur frá Hollandi þar sem hann útskrifaðist með meistaragráðu í tónsmíðum.  Þar hefur hann m.a. skrifað verk fyrir 20 píanó, sinfóníuhljómsveit og hið margrómaða Maarten Altena Ensemble.  Nú vinnur Ingi Garðar að verki fyrir 20 harmóníum (sálmareiðhjól) sem verður flutt í Haag nú í janúar.

Fengjastrútur er kammerhópur sem var stofnaður árið 2007. Hópurinn sérhæfir sig í sveigjanleika og einbeitir sér að verkum sem kalla á einkennilegar fyrirspurnir til flytjenda. Þannig er hópurinn vel til þess fallinn að leika sérhæfða nótnaskrift, spila á fundna hluti, nota rödd og líkama, vera í búningum, klifra í reipi eða hvað svo sem tónverkin gætu kallað eftir. Hópurinn hentar því vel til flutnings á tilraunatónlist einkum til dæmis verkum með opinni hljóðfæraskipan eða þar sem flytjendur þurfa að taka þátt í tónlistinni á margvíslegann hátt

Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 20:00.  Miðaverð er 1000 krónur.