Myrkir Músíkdagar 2009, fyrsti hluti

sunnudagur, 15 febrúar 2009
Ég ætla að fara stuttlega í gegnum það sem fyrir augu og eyru bar á myrkum músíkdögum. Bara stikla á stóru, ekki að fara ýtarlega í þetta allt. Það veitir ekki af því að koma einhverri umfjöllun yfir á miðil sem fólk les, eins og internetið þar sem mogginn er bara með greinar um Janis Joplin fyrir örfá bláfálka sem enn lesa prentmiðla og fréttablaðið fjallar ekki um menningu.

Á þriðjudeginum 3.febrúar var tekið forskot á Myrkrið með ömurlega leiðinlegum óperufyrirlestri Phillipe Manoury þar sem hann fjallaði um og spilaði brot úr hræðilega venjulegri og óspennandi óperu byggðri á réttarhöldunum eftir Kafka.

Svo var ekkert fyrr en á föstudaginn, raftónleikar. Þar ber helst að nefna mjög flott verk eftir Hilmar Þórða, Sononymous X þar sem Helgi Hrafn fór á kostum í gagnvirkum leik við tölvuna. Ríkharður átti ríkulega hljómandi rafspretti að vanda ekki síst í lokaverkinu sem notaði element úr verkum Páls Pálssonar eldri. Restin höfðaði ekki mikið til mín, fyrir utan eitt rafverk eftir einhvern miðaldra sunnlending sem heitir Guðmundur Óli Sigurgeirsson.

Á laugardeginum byrjuðum við Þráinn á kórtónleikum í Neskirkju. Þar stóð upp úr verk Elínar Gunnlaugsdóttur fyrir kvennraddir og háastrengi. Mjög sérstakt verk á takmörkuðu registeri. Það var eina verkið sem höfðaði til mín í raun og veru. Kórinn var mjög góður í vondu erlendu verkunum, m.a. eftir John Taverner, mikill bassi. Það voru fín verk eftir Gunnar Andreas og Harald Vigni. Örlygur var með metnaðarfullar harmóníur og Bára Gríms var líka með ágætisverk. Ég ætla að hafa sem minnst orð um verkin sem stuðuðu mig.

Þá næst fórum við á sýningu á verkum Alfreðs Flóka sem var fín en ekki síðri var Ásmundur Ásmundsson með holuna sína og vídjó af krökkum að grafa holu af miklum eldmóð. „Grafa niður, grafa niður.“

Þá var farið í Hafnarfjörð. Þar heyrðum við fyrir hlé bara fín verk eftir Önnu Þorvalds, Karólínu og Ása Más. Allt salla fínt og spilað af mikilli sannfæringu Tinnu og Franks. Það var einstaklega falleg sviðsmyndin í verki Önnu þar sem þau léku á sömu Slaghörpuna og maður sá allar aðgerðir Franks innan í píanóinu speglast kristaltært upp á píanólokið. Verk Ása Más endaði á gangandi bjöllu, bjölllu sem gekk út af sviðinu. Það rétt svo gaf tónin fyrir sviðslistahúllumhæið eftir hlé. Haldiði að það hafi ekki verið Palli og Áki með skínandi sveiflu. Þuríður Jóns og Rohloffinn með fín verk en dáðardrengir sláturs settu allt í nýtt samhengi eða voru hreinlega í röngu samhengi. Palli var með rosalega fallegt verk fyrir píanó prófara og urrara og padda. Rosalega sérstakt verk sem minnir mig óbeint á Skulu eftir mig sem Palli hefur aldrei heyrt og 328 eftir Áka. Áki teppalagði sviðið með sínu hafurtaski og sýndi að hann hefur engu gleymt. Sjálfur var hann á því að eitthvað hefði mistekist í lokin. Ég tók ekki eftir því, en hins vegar tók ég eftir honum færa míkrófón í miðju verki sem mér fannst alveg off. Balansinn var erfiður reyndar, í verkinu. En svaka bomba.

Því næst var förinni heitið í ljótasta hús sem ég hef á ævi minni séð, Guðríðarkirkju í Grafarholti. Lítur út eins og kókaín skemmtistaður í miðborg Reykjavíkur í miðri verðbréfahelförinni. En þar heyrðum við leiðinlegt sólóflautuverk eftir Manoury, sem var samt furðu þolanlegt. Ég fór að velta því fyrir mér hvort rafhljóðin væru ekkert svo hræðileg eða hvort maður verði ekki eins vandlátur á rafhljóð með aldrinum. Svo kom Hlými Atla Heimis. Sígildur slagari þar sem tónskáldið sýnir sérstöðu sína strax um leiði og hann vefur sig inn í teppi módernismans með sinni eigin rödd. Unaðslegt alveg. Þá næst var huldumaðurinn Einar Torfi með rosalega fínt verk. Talaði vel Lachenmannskt tungumál, það var helst miðjukaflinn af 9 sem var mjög persónulegur og einkennilegur, flottastur að matri margra viðstaddra. Hitt var meira svona góður djass. Flottar samsetningar hljóða en ekki mikið endilega gert við hvert hljóð en vel orkestrerað saman. Skröp strengjahljóðfærana grunar mig að hafi átt að vera grófari. Svo eftir hlé kom Manoury öllum að óvörum (mér að minnsta kosti) með þrusu stykki fyrir tvöfaldan kammerhóp (tvo stjórnendur). Svaka stuð og flottir glassúrveggir fullir af gestúrískum trillum og svoleiðis, haganlegasta smíði.

Leave a Reply

  

  

  

You can use these HTML tags

<a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>