in-EAR 2008

Written by Áki Ásgeirsson
þriðjudagur, 18 mars 2008

Undirritaður var þess heiðurs og ánægju aðnjótandi að vera fulltrúi Íslands á raftónlistarráðstefnunni in-EAR (Nordisk Forum for musikalsk informatik) sem fór fram í bænum Växjö í Svíðþjóð dagana 15. og 16 mars 2008.

Þetta er annað árið sem ráðstefnan er haldin og eru frumkvæðismennirnir þeir Hans Peter Stubbe Teglbjærg, frá Feney vestan Danmerkur, og Hans Parment frá Växjö (sem mætti kalla Vogsjó). Hinn síðarnefndi er kennari við Media Artes stofnunina í Växjö þar sem ráðstefnan fór fram.

Ráðstefnan er hugsuð sem vettvangur fyrir norræna raftónlistarmenn að kynna verkefni sín hver fyrir öðrum. Þarna voru komnir saman 22 þáttakendur sem flestir héldu stutta fyrirlestra. Stemmingin var yfirveguð og þægileg, umhverfið rólegt (byggingin hýsti áður geðsjúkrahús) og maturinn stórkostlegur.

Undirritaður kom ekki nógu tímanlega að hlýða á fyrstu fyrirlestrana og missti því af þeim Harold ME Viuff (DK), Wolfgang Peter (SE), Risto Holpainen (SE) og Hans Peter Stubbe Teglbjærg. Af þessum tónsmiðum vil ég þó nefna sérstaklega Harold ME Viuff sem ég náði að ræða við um verkefni hans. Hann er tónskáld, raflistamaður, kafari, vatnssprengisérfræðingur og gosbrunnagerðarmaður. Á in-EAR kynnti hann nýja þrívíða djúpneðansjávarhljóðupptöku úr kyrrahafinu (8 hljóðnemar í hring, 1 upp og 1 niður á 90 metra dýpi). Fleiri upplýsingar um Harold er að finna á heimasíðu hans: http://viuff.com/

Eftir kaffi kynnti Fredrik Hedelin tónsmíðaforritunarumhverfi sitt sem hann kallar Kimon. Þó ég hafi sökum sænsku ekki skilið Fredrik til fulls, virðist mér kerfi hans vera nokkuð “hefðbundið” umhverfi til algrímskra tónsmíða. Reyndar er það umhugsunarefni hvort það sé yfirleitt eftirsóknarvert að búa til sérhönnuð tónsmíðaforritunarumhverfi þar sem það felur alltaf í sér skilgreiningu á því hvernig tónlistin “ætti að vera”. Það hefur líka sýnt sig að markaðurinn fyrir algrímsk tónlistarforrit er ENGINN, enda hafa skapandi tónlistarforritarar meira gaman af því að forrita sjálfir en að notast við hugmyndir annara um það hvað músík er.

Næstur í röðinni var Peter Tornquist sem er sænskur norðmaður. Hann flutti áhugavert erindi um samband tónskálds og flytjenda í sköpunarferli tónsmíða. Í verkum sínum notast hann mjög svo við umritanir, þýðingar, endurumritanir og þýðingaþýðingar þar sem spuni hljóðfæraleikarana hverfist (eða hverfur) inn í tónsmíðina auk ýmsu “fundnu” efni, myndbrotum og texta sem er “þýddur” yfir í tónlist með hjálp tölvu. Aðferðir Peters vekja mann til hugsunar um stöðu tónskáldsins í nýjum tækniveruleika, vægi flytjenda gagnvart tónskáldi og ímyndina um “listræna meistarann” sem varð til á tímum Beethovens og mun hugsanlega líða undir lok á 21. öldinni.

Um kvöldið voru haldnir tónleikar þar sem Kjell Tore Innervik (NO) lék á fjórðungstónatréspil (sjá http://www.quartertonemarimba.com/ ) verk eftir Ivar Frounberg (NO) sem heitir “Waves and velocity of dawn and dusk”, umritun á verki James Wood, “Elanga N’Kake singing to his craft” frá árinu 1993 og að lokum sínýtt hálfspunaverk eftir Peter Tornquist sem ber titilinn “Q/Carving”. Tónleikarnir voru góðir í heildina (ekki of langir), Kjell Tore lék mjög vel á marimbuna og stjórnaði tölvu af miklum myndarskap.

Besta verkið fannst mér þó vera hið and-skandinavíska, verk bretans James Wood. Aðra tónlist þess tjalla þekki ég ekki og þó flutningur Kjell Tore hafi átt stóran þátt í áhrifakrafti verksins hef ég fullan hug á að kynna mér tónlist James Wood betur. Heimasíða JW: http://www.choroi.demon.co.uk/

Á sunnumorgninum kynnti Ivar Frounberg doktors- og “póstdoktors-“nám í raftónlist við tónlistarháskólann í Oslo auk þess að sýna dæmi um strúktúralíska hugsun í Max-umhverfi, Thomas Sandberg sýndi vefhönnun sína sem er hluti af e.k. “tónlist fyrir alla” verkefni í Danmörku (sjá http://www.thomassandberg.dk) og undirritaður kynnti nokkur verk sín sem notast við rauntímanótnaskrift (nánar tiltekið skjáspunann “kvartett og fluga”, talfall og 356°).

Eftir hádegi talaði Åke Parmerud um nettengingar milli tölva með áherslu á vídeó- og hljóðsendingar og sýndi svo myndbrot úr dansverki sínu, “The Seventh Sense”. Verkið er reyndar nokkuð flott, fimm samtengdar tölvur, hver um sig með tvær myndavélar og skjávarpa, þrír dansarar, samtengd ljósastýringing, sumt í rauntíma, sumt fyrirfram upptekið, bíómyndatónlistartilvitnanir, tekknó og dramatísk fantasía (sjá http://www.youtube.com/watch?v=2Xg4_I4VqmU og http://vids.myspace.com/index.cfm?fuseaction=vids.individual&VideoID=25472680). Verkið var sýnt í Danmörku en sökum flókinnar uppsetningar er óvíst með fleiri sýningar.

Í lokin var framtíð in-EAR ráðstefnunnar rædd. Allir voru sammála um nauðsyn slíkrar ráðstefnu og hugmyndin er að endurtaka leikinn að ári í Vogsjó en jafnvel breyta fyrirkomulaginu í framtíðinni þannig að ráðstefnan færi sig á milli norðurlandanna.

mars 2008, áki ásgeirsson

Leave a Reply

  

  

  

You can use these HTML tags

<a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>