Darmstadt-Miðvikudagur.

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
sunnudagur, 13 júlí 2008

Það voru tveir ágætis fyrirlestrar sem ég sá á miðvikudag. Fyrst var það saxófónleikarinn Marcus Weiss sem kynnti nýútkomna bók sína um framlengda tækni og fleira. Það var áhugaverður fúnksjónal fyrirlestur, hann talaði líkt og trompetleikarinn knái gegn því að hugsa um framlengda tækni sem svona valmöguleika á lista (eðli neysluhyggjunnar og þar með síðnúhyggju, innskot undirritaðs) heldur að skilja hvernig þær tengjast og hvernig þetta virkar, svæði sem eru tengd og virka vel saman t.d. Í svona multifóníkkum.

Næst var fyrirlestur Misato Mochikuzi. Flott tóndæmi, verð ég að segja. Rosalega fín orkestrasjón af svona myndrænni dýralífsorkestrasjón sem var skemmtilega ótungumálakennd, í bakgrunni var svona fjarlægur púls sem hún talaði um sem svona mælistiku. Hún talaði ómarkvisst um áhrif úr vísindum og fór í rauninni ekki djúpt í neitt heldur spilaði vandaða vel hljómandi mússík og kom með svona litlar pælingar þess á milli sem voru áhugaverðar. Hún útskýrði endurtekningar sínar með áhuga sínum á ljósmyndum og löngun til þess að frysta augnablik. Svona flöffí en skemmtilegar pælingar. Einnig um Buckminster Fuller og blöðru borgir, eða borgir sem svífa í lausu lofti og verk sem hún byggði á þeirri pælingu.

Þá var ferðinni heitið í íþróttahús á tónleika Ascolta hópnum, en flest verkin voru eftir frekar ung tónskáld. Öll verkin voru fyrir svona sirka 8-10 hljóðfæri. Fyrst var verk eftir eftur Mörtu Gentilucci. Það fannst mér frekar vemmilegt í sándi. Elektrónísk hljóð léku stórt hlutverk og urðu dáldið vafasöm á köflum, einstaklega vafasamur var rafbassapartur. Næsta verk var eftir Annesley Black. Þegar verkið byrjaði þá hugsaði ég með mér að þetta væri bomban, alla vega það besta hingað til. Tja byrjunin var alla vega mjög góð, það var svona pupu með mjútaðann trompet og slide banjó í broddi fylkingar. Svo fór það skyndilega í eitthverja gliss orgíu milli sellós og blásýju og svo eitthvað pínu annað og annað. Mér fannst verkið ekki halda sig nógu afmarkað en Davíð fannst það vera of afmarkað. Það er kannski sama vandamálið (meira það sama eða aldrei það sama eru að mörug leyti skildari hugtök en stundum það sama með andstæðum). Eduardo Moguillansky átti síðan svona vel ortan hittara sem hann stjórnaði sjálfur. Rosalega vel gert og stutt og laggott en ákaflega ófrumlegt. Þetta var kannski svona smá lachenmann með rómönsk ættuðum blæbrigðum. Verkið var of fínt og er því vont, fellur í ormagöngin (sjá kort páls um skýrleika og gæði). Síðasta verkið er gagnstætt að segja um. Það var verkið abgewandt-musik fur hörende eftir Nikulaus Brass. Það var groddalegt og svona „lélegra“ í núönsum og hnoði en verkið á undan en svaka fínt hávaði og pönk með háværum blásýum og slagverki og svo lágværir kaflar inn á milli. Öfugt við verkið á undan var það hins vegar langt og ekkert í seinni hluta þess virtist réttlæta lengdina, frá mínum bæjardyrum séð.

Um kvöldið voru svo tónleikar með einni af „gömlu hetjunum.“ En það er gamla hetjann sem enginn man eftir og enginn veit af hverju hann er einn af hetjunum miklu (af fólki í kringum mig). En hann á eitt óumdeilanlegt framyfir flestar af hinum gömlu hetjunum, jú, hann er ekki dauður. Við erum að tala um Gyorgy Kurtag. Já hann. Það er bara eitt verk eftir hann sem ég hef hlustað á af athygli og mér fannst það leiðinlegt fyrst og svo hlustaði ég á það með skorinu og fannst það frábært þá. Því miður man ég ekki hvað það heitir. En vandamál mitt við hans tónlist er að hún er kannski jafnvel eldri en hann er. Jú, hún byggir á línum og svoleiðis. Þess vegna á hann mikið af löngum verkum fyrir fá hljóðfæri. Þessir tónleikar voru fokking tveir tímar af klassísku rugli. Fyrst var helvíti ógeðslega langur dúett fyrir sópran og fiðlu. Hljóðfæraleikararnir fóru alveg á kostum og mússíseruðu svoleiðis alveg bara, ha. Verkið er röð af míniatúrum sem notast við brot úr skáldsögum Kafka sem texta. Þegar ég segji röð af míníatúrum þá meina ég mjög löng röð af ógeðslega mörgum míníatúrum. Míníatúrarnir skiptast í 4 stórar grúppur og þegar þriðja var að byrja var ég þegar farinn að hugsa mér leið út úr þessum heimi. Hápunktur verksins var þegar það var búið, af því það var búið, en hápunktur kvöldsins var að sjá Kurtag gamla skjálfandi af ánægju með flytjendurna í sitthvorum lófanum og lyfti skjálfandi höndum upp og áheyrendur hylltu sem guð. Af skyldurækninni einni fór ég ekki í hléinu og hlustaði á byrjunina á næsta verki sem var talsvert skárra, en nei, þolinmæði mín var búinn og eftir þrjá mínatúra í því langa mínatúraverki (fyrir slagverk, barítón, fiðlu, víólu og selló) fór ég út, hingað og ekki lengra.

Leave a Reply

  

  

  

You can use these HTML tags

<a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>