Darmstadt-Asísku liðin

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
laugardagur, 26 júlí 2008

Í Darmstadt er mikið af þáttakenndum frá Austurlöndum. Þeir virðast þó vera pínu út af fyrir sig í hverju landi fyrir sig og eru mjög misgóðir í ensku og þýzku. Ég gerði það að gamni mínu viljandi og óviljandi að reyna að kynnast og lesa inn í þessa hópa, einkum, kínverski hópurinn og kóreski hópurinn.
Þess má geta að það var ekki hægt að komast hjá því að skynja almenna vanvirðingu og áhugaleysi í garð asísku liðanna frá Evrópsku og Amerísku liðunum. Á duo konflikt tónleikana (sem innihéldu japanskan og kóreskan aðila og aðallega asíska tónlist) mættu nánast engir fölhvítir og þeir sem mættu byrjuðu baulið. Einnig heyrði ég margar umræður þar sem talað var pent um (en þó meinað) hvers vegna í andskotanum mikið af asíska fólkinu væri hérna, sem skildi margt hvorki almennilega ensku né þýzku og virtist ekki „taka tónlist alvarlega“ eða vera bara í allt öðrum pælingum fagurfræðilega.
Eftir skemmtilega setustund með kínverska liðinu þar sem ég sá hljóðfærafræðibók á kínversku með vestrænum hljóðfærum (klassík og rokk) og kínsverskum hljóðfærum í sömu bókinni opnaðist fyrir mér ný vídd. Leikin voru fyrir mig ýmiss kínversk verk eftir ungtónskáld sem áttu flest fullt af verkum í fallega innbundnum möppum með fallegum kínverskum táknum. Þau áttu flest margra þátta verk eða röð af svítum um vorið og haustið og jörð og vatn og ég veit ekki hvað og hvað. Svo heyrði ég leikið á píanó mjög undarlega tónlist sem ég verð að segja að er á allt öðrum stað í menningunni. Það var eins og notuð væru mótíf úr „nútímatónlist“, „rómantískri tónlist“ og „kínverskri tónlist“ en sett saman á einhvern undarlegan hátt þar sem ég fékk á tilfinninguna að það sem ég þekkti í tónlistinni væru bara orð, tökuorð sem fengið hefðu á sig nýja mynd og merkingu í undirliggjandi tungumáli sem ég hefði engan skilning á. Ég áttaði mig á því að ég gat ekki auðveldlega dæmt, þetta er nú bara eitthvað rugl, vegna þess að eftir að hafa heyrt nokkur svipuð verk fattaði ég að undir niðri var einhver syntax eða regla eða merkingarfræði sem ég skildi bara ekki. Því þó svo að orðin séu skiljanleg og allt er inn á ramma píanóss og vestrænnar nótnaskriftar, er eitthvað undirniðri í tónlistinni sem er í raun gjörsamlega annað. Fágunin er á háu stigi en syntaxin og fagurfræðin er svo ólík að ef maður reynir að heyra þetta sem vestræna nútímatónlist hljómar það bara eins og eitthvað bull, en er í raun allt annað.
Kóresku liðin töluðu um merkingu á hátt sem ég skildi ekki. „Hvað þýðir þetta verk?“, „hvað þýðir þetta hljóð?“ spurningar sem ég skil ekki hvað liggur að baki. Eftir að hafa borðað sama kvöldmatinn í viku spurðu kínverjarnir mig hvort svipaður matur væri étinn á Íslandi og jánkaði ég því. Það fannst þeim athyglisvert. Kínverjarnir undruðu sig (án gagnrýni) á einhæfninni og veltu líka fyrir sér almennri einhæfni og grámyglu í litavali á byggingum og slíku í Þýskalandi. Einn kínverji sem var að læra í þýskalandi var mjög hrifinn af tækninni hjá þýskum tónskáldum en fannst tónlistin oft ekki alveg nógu falleg, hún væri jú falleg á sinn hátt og flott óhljóð og svona, en hann vildi meiri „fegurð.“ Asísku liðin ferðuðust oft í liðum, og höfðu oft einn í liðinu sem var meiri tungumálamaður en flestir og þýddu fyrir restina. Merkilegast fannst mér þó „skorturinn á alvarleika“ hjá einkum kínverjunum. Þeir virtust ekki hafa neina feimni í því að sýna bækur sínar af 50 píanó etýðum eða „chinese art song“ lögum og töluðu ekki um tónsmíðar sínar á upphafinn hátt eða í blindri þrá eftir elítísku samþykki heldur virtust hafa jarðbundna nálgun að sköpuninni sem var ekki þrungin rómantískum kvíða og þunga. Athyglisvert og kennir manni hversu lítið maður skilur í raun.

Leave a Reply

  

  

  

You can use these HTML tags

<a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>