October 2018
S M T W T F S
« Jul    
 123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
28293031  

in-EAR 2008

Written by Áki Ásgeirsson
þriðjudagur, 18 mars 2008

Undirritaður var þess heiðurs og ánægju aðnjótandi að vera fulltrúi Íslands á raftónlistarráðstefnunni in-EAR (Nordisk Forum for musikalsk informatik) sem fór fram í bænum Växjö í Svíðþjóð dagana 15. og 16 mars 2008.

Þetta er annað árið sem ráðstefnan er haldin og eru frumkvæðismennirnir þeir Hans Peter Stubbe Teglbjærg, frá Feney vestan Danmerkur, og Hans Parment frá Växjö (sem mætti kalla Vogsjó). Hinn síðarnefndi er kennari við Media Artes stofnunina í Växjö þar sem ráðstefnan fór fram.

Ráðstefnan er hugsuð sem vettvangur fyrir norræna raftónlistarmenn að kynna verkefni sín hver fyrir öðrum. Þarna voru komnir saman 22 þáttakendur sem flestir héldu stutta fyrirlestra. Stemmingin var yfirveguð og þægileg, umhverfið rólegt (byggingin hýsti áður geðsjúkrahús) og maturinn stórkostlegur.

Undirritaður kom ekki nógu tímanlega að hlýða á fyrstu fyrirlestrana og missti því af þeim Harold ME Viuff (DK), Wolfgang Peter (SE), Risto Holpainen (SE) og Hans Peter Stubbe Teglbjærg. Af þessum tónsmiðum vil ég þó nefna sérstaklega Harold ME Viuff sem ég náði að ræða við um verkefni hans. Hann er tónskáld, raflistamaður, kafari, vatnssprengisérfræðingur og gosbrunnagerðarmaður. Á in-EAR kynnti hann nýja þrívíða djúpneðansjávarhljóðupptöku úr kyrrahafinu (8 hljóðnemar í hring, 1 upp og 1 niður á 90 metra dýpi). Fleiri upplýsingar um Harold er að finna á heimasíðu hans: http://viuff.com/

Eftir kaffi kynnti Fredrik Hedelin tónsmíðaforritunarumhverfi sitt sem hann kallar Kimon. Þó ég hafi sökum sænsku ekki skilið Fredrik til fulls, virðist mér kerfi hans vera nokkuð “hefðbundið” umhverfi til algrímskra tónsmíða. Reyndar er það umhugsunarefni hvort það sé yfirleitt eftirsóknarvert að búa til sérhönnuð tónsmíðaforritunarumhverfi þar sem það felur alltaf í sér skilgreiningu á því hvernig tónlistin “ætti að vera”. Það hefur líka sýnt sig að markaðurinn fyrir algrímsk tónlistarforrit er ENGINN, enda hafa skapandi tónlistarforritarar meira gaman af því að forrita sjálfir en að notast við hugmyndir annara um það hvað músík er.

Næstur í röðinni var Peter Tornquist sem er sænskur norðmaður. Hann flutti áhugavert erindi um samband tónskálds og flytjenda í sköpunarferli tónsmíða. Í verkum sínum notast hann mjög svo við umritanir, þýðingar, endurumritanir og þýðingaþýðingar þar sem spuni hljóðfæraleikarana hverfist (eða hverfur) inn í tónsmíðina auk ýmsu “fundnu” efni, myndbrotum og texta sem er “þýddur” yfir í tónlist með hjálp tölvu. Aðferðir Peters vekja mann til hugsunar um stöðu tónskáldsins í nýjum tækniveruleika, vægi flytjenda gagnvart tónskáldi og ímyndina um “listræna meistarann” sem varð til á tímum Beethovens og mun hugsanlega líða undir lok á 21. öldinni.

Um kvöldið voru haldnir tónleikar þar sem Kjell Tore Innervik (NO) lék á fjórðungstónatréspil (sjá http://www.quartertonemarimba.com/ ) verk eftir Ivar Frounberg (NO) sem heitir “Waves and velocity of dawn and dusk”, umritun á verki James Wood, “Elanga N’Kake singing to his craft” frá árinu 1993 og að lokum sínýtt hálfspunaverk eftir Peter Tornquist sem ber titilinn “Q/Carving”. Tónleikarnir voru góðir í heildina (ekki of langir), Kjell Tore lék mjög vel á marimbuna og stjórnaði tölvu af miklum myndarskap.

Besta verkið fannst mér þó vera hið and-skandinavíska, verk bretans James Wood. Aðra tónlist þess tjalla þekki ég ekki og þó flutningur Kjell Tore hafi átt stóran þátt í áhrifakrafti verksins hef ég fullan hug á að kynna mér tónlist James Wood betur. Heimasíða JW: http://www.choroi.demon.co.uk/

Á sunnumorgninum kynnti Ivar Frounberg doktors- og “póstdoktors-“nám í raftónlist við tónlistarháskólann í Oslo auk þess að sýna dæmi um strúktúralíska hugsun í Max-umhverfi, Thomas Sandberg sýndi vefhönnun sína sem er hluti af e.k. “tónlist fyrir alla” verkefni í Danmörku (sjá http://www.thomassandberg.dk) og undirritaður kynnti nokkur verk sín sem notast við rauntímanótnaskrift (nánar tiltekið skjáspunann “kvartett og fluga”, talfall og 356°).

Eftir hádegi talaði Åke Parmerud um nettengingar milli tölva með áherslu á vídeó- og hljóðsendingar og sýndi svo myndbrot úr dansverki sínu, “The Seventh Sense”. Verkið er reyndar nokkuð flott, fimm samtengdar tölvur, hver um sig með tvær myndavélar og skjávarpa, þrír dansarar, samtengd ljósastýringing, sumt í rauntíma, sumt fyrirfram upptekið, bíómyndatónlistartilvitnanir, tekknó og dramatísk fantasía (sjá http://www.youtube.com/watch?v=2Xg4_I4VqmU og http://vids.myspace.com/index.cfm?fuseaction=vids.individual&VideoID=25472680). Verkið var sýnt í Danmörku en sökum flókinnar uppsetningar er óvíst með fleiri sýningar.

Í lokin var framtíð in-EAR ráðstefnunnar rædd. Allir voru sammála um nauðsyn slíkrar ráðstefnu og hugmyndin er að endurtaka leikinn að ári í Vogsjó en jafnvel breyta fyrirkomulaginu í framtíðinni þannig að ráðstefnan færi sig á milli norðurlandanna.

mars 2008, áki ásgeirsson

in-EAR 2008

Written by Administrator
fimmtudagur, 13 mars 2008

Áki Ásgeirsson heldur fyrirlestur um rauntíma nótnaskrift á In-EAR ráðstefnunni í Växjö í Svíþjóð sunnudaginn 16. mars klukkan 11:00.

Nálægir áhugamenn um raftónlist eru hvattir til að mæta.

Heildardagskrá ráðstefnunnar er eftirfarandi:

in-EAR Lørdag 15/3

13.00 Harald Me. Viuff (DK) : undervands optagelser på Galethea ekspiditionen.
13.45 Wolfgang Peter (SE) : Nyt EAM verk over Harry Martinsons Aniara.
14.30 Risto Holpainen (FI) : Præsentation af bog om lydsyntese og af adaptiv syntese.
15.15 Hans Peter Stubbe Teglbjærg (DK) : at komponere med fysiske modeller : Regime_S.

16.30 Fredrik Hedelin(SE) : Kimon – præsentation af et computerunderstøttet kompositionsmiljø.
17.30 Peter Tornquist (NO) : computerunderstøttet interaktion mellem komponist og musiker.

20.00 Kjell Tore (NO) : præsentation af 1/4 marimba og nye værker for instrumentet med elektronik
KONCERT på eksperiment scenen

“Waves and velocity of dawn and dusk” av Ivar Frounberg
“Q/Carving” av Peter Tornquist

in-EAR Søndag 16/3

10.00 Ivar Frounberg (DK) : Den interaktive computer – programstruktur, repræsentation og performance.
11.00 Aki Asgeirsson (IS) : 356° – realtime notation for bassclarinet & marimba.
12.00 Henrik Sundh + Tobias Wallin (SE) : interaktiv racerbane og “ISKT”.

14.30 Åke Parmeryd (SE) : Præsentation af aktuelle Music/Video projekter.
15.30 Thomas Sandberg (DK) : INTER_FACE – research af webbased interaktion og performance.
16.30 Afrundning
17.30 slut

Helmut Lacheman Dagar í New York – PT. 1

Written by DBF
miðvikudagur, 12 mars 2008
Var að koma af fyrirlestri hjá Helmut Lachenman og varð bara að bæta við að Steini hefur alveg rétt fyrir sér. Maðurinn er alveg eins og Ingi Garðar… Meira á morgun.

Kólómbíu Kómpósarar, NYC

Written by DBF
mánudagur, 10 mars 2008
Ég var að stíga inn af tónleikum hjá nemendum við Kólmbíu háskóla hér í NYC sem voru haldnir í Rúlettunni í Soho, sem er listrymi sem er meðal annars tengt Phil Niblock sem Guðmundur Steinn minntist á hér um daginn. Verkin voru fyrir hljóðfærasamspil frá 2 – 12 hljóðfærum og rafmagn. Ég ætla ekki að rekja nákvæmlega hvernig meirihlutinn af verkonum gekk eða var heldur minnast á það sem fór vel (skrifa kannski restina á morgun). Eitt verkanna var verkið SWITCHING fyrir magnað selló og trommusett eftir Sám Plúta. Verkið er stutt hratt, með mikilli distortíon, og samanstendur að megninu til af sargi og hröðum fingrahreyfingum sem í gegnum bjögunina koma út sem beitt hljóð sem hendist á milli yfirtóna. Slagverkið barði mikið í höggum og svo svona rattattattatta dótaríi á móti sellóinu. Á meðan sellóið spilaði ekki þá fékk feedback að byggja sig upp í gegnum sellóið ofan á trommurnar. Bráðskemtilegt og hressandi stykki fyrir alla aldurshópa (tveir prófesorar sáust stynga fingrum í eyrun á meðan stykkið gekk yfir). Hitt góða stykkið á tónleikunum var eftir Mexikóa að nafni Viktor Áð-an fyrir fiðlu selló trompett og slagverk. Verkið var svona “varlahægtaðheyraþað” extended technique orgía, sem hékk saman á viljanum einum saman. Frábært stykki í alla staði. Hundaýlur, og metal demparar á strengina. Alveg hreint stórskemmtilegt í alla staði. Ekkert betra en Póst-Músík sem áttar sig á því að það að skrifa hendingar og nótur er alveg rosalega 90´s eitthvað….

1.Desember 2007 Francis Dhomont í RML.

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
fimmtudagur, 06 mars 2008

Ég hef ætlað mér að skrifa um hina og þessa tónleika í dágóða stund en lítið gert í því. Ég geri meira af því að slefa. En ég ætla að taka smá yfirlit yfir nokkra tónleika sem gaman væri að deila með ágengnum af mismunandi ástæðum. Það sem tengir saman alla pistlana sem hér á eftir koma er orðið fánaberi sem ég hef haft sérstakt dálæti á undanfarið.

Francis Dhomont og Louis Dufort voru með tónleika í hinu goðsagnakennda rými Recombinent Media Labs í San Francisco. Um er að ræða rými sem er með 16 hátalara kerfi og 16 skjávarpa og transdúsera sem hrista gólfið og ég veit ekki hvað og hvað. Aðal ástæða þess að ég kýs að fjalla um þessa tónleika er sú að rýmið var að leggja upp laupana. Deilur milli aðila einn hirti rýmið og annar græjur, eitthvað eitthvað. Davíð og fleiri hafa sagt mér undarlegar sögur um aðstandendur þessarar stofnunnar, erfingjar, fyrrverandi hjón, ógæfa, eitthvað og eitthvað annað. Um svipað leyti fékk ég ekki vinnu hjá skyldri stofnun sem kann að skýra af hverju þetta fór allt til fjandans. En einmitt skemmtilegur tónleikastaður að koma á og oft raflistamenn sem koma og vinna sérstaklega með rýmið.
Fyrir þá sem ekki vita er Francis Dhomont helsti flaggberi hinnar fransk-Kanadísku Musique Acousmatique stefnu. Þetta þýðir bara raftónlist af bandi. Hann er gamall og fagurfræði tölvuhljóðanna eftir því. Í sumum verkum var hann með ógeðslega vond vídjó sem einhver annar hafði gert. Louis Dufort er yngri og sennilega nemandi eða fylgifiskur Dhomont. Hans tónlist var ungæðislegri og agressífari og skyldi meira eftir sig, að mér fannst. Lokaverkið tók bikarinn en það var verk sem Dufort gerði sérstaklega fyrir rýmið og notaði alla hátalara og skjádót, sörránd í augu og eyru. Það var stórskemmtilegt og kröftug upplifun, jafnvel þó fagurfæðin væri dáltið næntís. Fleiri verða ekki orðin hér.

19.Janúar 2008 Kazue Sawai í Stanford

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
fimmtudagur, 06 mars 2008

Rosalegir tónleikar rosalegs Koto leikara. Fyrir leikmann eins og mig hljómar hún eins og venjulegur Koto leikari, en fyrir hefðbundna grafalvarlega japanska kotoleikara árið 1960 eða fyrr, var spilamennska hennar hneyksli. En síðan þá hefur margt vatn runnið til sjávar og Kazue er fánaberi nýja Kótósins. Hún lék sóló kótóverk af stakri snilli. Lék svo með Shakuhachi leikara frá Oregon sem var að sjálfsögðu hvítur maður með rakað hár en fléttu að aftan, öskrandi jurtate. En hljómaði mjög vel. Hún lék verk eftir hina og þessa, forn og ný, tvö eftir fyrrverandi eiginmann sinn sem voru frábær og eitt eftir son sinn sem var hryðjuverk. Sonurinn skrifaði fyrir saxófón og kótó með flamenco ívafi, FJÁRSEKT. En eiginmaðurinn fyrrverandi skrifaði rosaleg verk fyrir Koto hljómsveit. Komu þá 12 kótó á sviðið, sum bassa og sum venjuleg og var þá heldur betur dúndrað. Það voru ótrúleg hljóð sem mynduðust þegar 12 Kótó gerðu fáránlega einfalda hluti eins og að strjúka hendinni yfir strengi, lemja með kjuða þannig að skoppi og fleira slíkt. Samband tónskálds við hljóðfæri var augljóst. Besta stykki tónleikana var þó verk eftir Yuji Takahashi, sem ég hef dálæti á (bróðir Aki Takahashi en ef mér skjátlast ekki þá var það Yuji sem frumflutti Herma eftir Xenakis, getur það verið? Er ég ekki bara eitthvað að steypa). En verk Yuji´s var hrikalega hljóðlátt verk fyrir fimm strengja koto (næstum því ekki hljóðfæri, svo litlir möguleikar) og rödd sem hummar ofurlágt, varla að það heyrist. Einhver var elektróník en hún blandaðist gjörsamlega inn þannig að ég vissi ekki hvenær hún var að gera eitthvað með röddinni og hvenær rafhljóð voru í spilinu.

2.febrúar activating the medium, San Francisco Art Institute

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
fimmtudagur, 06 mars 2008

Kom seint og heyrði mjög venjulega raftónlist flutta af Jason Kahn. Samt fínt. Þar næst spilaði Tim Catlin frá Ástralíu sem spilaði á raf og undirbúinn gítar. Alveg ömurlegt. Bara hrikalega lélegt í alla staði. Fer ekki út í það nánar. Missti af Ulrich Krieger sem ég hafði séð á frekar ömurlegum tónleikum nokkrum dögum áður þar sem hann lék með ýmsum. Sá er þýzkur saxófónleikari sem notast við raf, ekkert meira við það. Svo kom sleggjan sem tók bikarinn, í lokinn, verk eftir Zbigniew Karkowski sem áður nefndur Ulrich Krieger spilaði í ásamt fólki sem ég þekki. Allir léku í míkrófóna sem virtust tengjast inn í eitthvert massíft djúpt fídbakk fjöltengi þar sem allt virtist módjúlera allt. Aðallega heyrði maður massífan djúpan hávaða og þegar hljóðfærin spiluðu heyrði maður þau aðeins í bakgrunni en aðallega hvernig þau hrærðu í hljóðinu sem var í gangi. Þannig að aðallega heyrði maður eitt hljóð allan tímann sem var alveg geðveikt. Get ekki lýst þessu betur. Algjört dúndur og ég óska eftir frekari upplýsingum um þennan Pólverja sem lærði í Svíþjóð og er víst búsettur í Japan. Vil nálgast meira af hans músík.

9.febrúar 2008 Bang on a can west coast marathon

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
fimmtudagur, 06 mars 2008

Já ég fór og var allann daginn og kvöldið líka. Tók allt maraþonið, fyrir utan smá í byrjun. Kom inn þegar Berglind og Tinna voru að spila. Svaka flott en urðu fyrir aðkasti reverbfræðings á takkaborðinu. Mjög flott brot úr verki eftir Karólínu Eiríks sem heitir Stjörnumuldur. Eiginlega bara mjög flott. Heyrði svo allt verkið degi síðar. En þær léku einnig verk eftir Evan Ziporyn sem er svona slagari og gerðu vel. Og svo var bara tíminn búinn og NÆSTI. Þá tók við Carla Kihlstedt með einhvers konar drama án leikhlutans. Tónlist sem var einhver svona skrýtin kabarett rokkópera í 7/8 með gamansömu ívafi og ógðeslega „góðum“ tónlistarmönnum (trommari með sessjónsvip). Smekklaust frekar, eitthvað of vestkóst við þetta, skil ekki sumt svona dót sem fólk lætur eftir sér hér um slóðir. Dósaglamursalstjörnusveitin kom og lék verk eftir Lukas Ligeti og annað eftir Fred Frith sem voru bæði bara fín en ekkert sérlega eftirminnileg, en dáltið bangonacanlegt, svona rutmískt og pólírutmískt og dáltið stuð og rokk. Mjög flott band að sjá svona og svaka dúndúr sánd og svona. Pamela Z kom og gerði skrýtið með rödd og tölvu og skynjuðum hreyfingum. Eitthvað hallærislegt vídjó og gaur að spila það sama lengi á prepared kassagítar. Edmund Welles Bassaklarinettu kvartettinn. Fjögur bassaklarinett að spila frumasamið þungarokk. Svæðisbundnir menn úr SF conservatory. Svaka góðir, svaka kraftur. Hljómar samt allt eins í þriðja lagi. Þá fara líka bassaklarinett að hljóma meira og meira eins og eitthver plaströr. Svo komu Bang on a Can liðið aftur á svið og léku nýtt verk samið fyrir þau eftir Alvin Lucier sem var æðislegt. Hægt og rólegt og liðaðist kringum eina nótu, bikar dagsins! Því næst léku þau verk eftir Thurston Moore gítarleikar Sonic Youth sem var skelfilegt. Bara eins og sessjon spilarar að kovera sonic youth. FJÁRSEKT! Svo endaði dags dagsskráin á lélegu lélegu lélegu. Cheb I Sabbah. Fjöleþnískt popp. Lélegt. Asnalegt.

Kvöld dagskráin byrjaði svo á fánabera bangonacan slögurum eftir aðal hirðtónskáld hópsins Juliu Wolf, David Lang og Michael Gordon. Ég er enginn fan en það var svaka dúndur og gaman og sjaldan að maður sér svona flókna fjölhryns músík dúndraða í svona sándi og fílíng. Virkaði mjög vel. Þrjú fyrstu verkin semsagt fín. Restin var svo léleg að ég nenni ekki að skrifa um það. Það voru samstarfsverkefni með Don Byron (drasl) og Ivo Pittova (fín ein en hópurinn hafði engu við að bæta og reyndi að vera djammband í anda greatful dead) DAUÐAREFSING! En gaman að vera búinn að fara á svona maraþon. Pælingin með maraþon er mjög skemmtileg og það er gaman að vera á maraþoni.

23.febrúar activating the medium, San Francisco Art Institute Phil Niblock

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
fimmtudagur, 06 mars 2008

Drón og myndir af fólki að vinna. Phil Niblock er einn af fánaberum drónsins og hefur verið lengi. Mjög falleg drón sem umvefja mann og draga mann inn í sig og eru áhugverð lengi því það er svo margt í þeim. Hins vega var bara drón, þrjú stór löng drón og myndir af fóki að vinna. Eftir tónleikana talaði ég við John Bischoff fyrrum kennara minn. Hann sagðist hafa séð Niblock fjórum sinnum á næstum 30 árum. í öll skiptin hafði það verið fínt og mjög svipað. Drón og myndir af fólki að vinna.

26.Janúar 2008 Helmut Lachenmann í Mills

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
fimmtudagur, 06 mars 2008

Helmut Lachenmann, fánaberi þýzka hávaðans heiðraði gamla skólann minn með nærverusinni. Í tilefni þess reyndi ég að stalka hann og náði smá tali af meistaranum, sá hann lesa fyrir og fór á tónleika. Í kringum atburðin gerði ég mér líka sérstakar ferðir á bókasafn ucberkeley til að glugga í nokkur skor og hlusta í tölvunni minni. Maka krókinn og gera meira úr nærverunni og finna eitthvað í tónlistinni. Eins og Páll hefur orðað það er Helmut Lachenmann rænitónskáld. Eins og Davíð hefur orðað það er hann svoldið gamaldags í formi. En það breytir ekki því að Helmutinn á glæstan feril að baki með fjöldanum öllum af fyrirtaks óhljóðakammerverkum. Mér þykir þó helst eldri verkin (frá 8.áratugnum) bera af. Kannski dáltið keimlík þessi nýrri og ekki eins öfgakennd og ganga ekki eins langt. Tónleikarnir hófust með Gran Torso sem er strengjakvartett frá þessu gullna tímabili sem ég er að tala um. Ótrúlegt verk sem notar þagnir ótrúlega fallega. Sem betur fer sat ég á öðrum bekk fyrir miðju, annars hefði ég misst af verkinu. Kvartettinn var leiddur af Graeme Jennings sem stóð sig eins og skurðgoð og veifaði stundum boga til að halda kjölturökkunum saman. Þar næst lék Hellarinn sjálfur á slaghörpu, fyrst Wiegenmusik sem er svona nútímaverk frá 1963, ekkert sérstakt við það og síðan lék hann Kinderspiel. Ég fæ ekki betur séð en að Lachenmann sé afbragðspíanisti með mjög harðan áslátt og nákvæmur þótt gamall sé. Soldið mikill pedall eins og tónskálda er von og vísa. Ég trúi því eiginlega ekki að hann sé jafn gamall og hann er sagður vera. Hann lítur út eins og Ingi Garðar, nema bara hraustlegri og beinni í baki, grannur og spengilegur og varla gráhærður. Bara mjög sætur. Þar næst tók Graeme Jennings í fiðlu í hálfkæringi. Lék Toccatinu frá 1986. Það hljómaði eins og verk fyrir sólófiðlu eftir Helmut Lachenmann, ekkert öðruvísi. Vel spilað en samt virkaði fiðlarinn úr karakter, veit ekki, skrýtið. Eftir hlé var svo leikið verkið Allegro Sostenuto sem er svona mega smákammerverk. Langt og mikið verk fyrir píanó, selló og klarinett. Hélt athygli allan tímann og gríðarlega kröftug spilamennska þar sem Matt Ingalls sem er ekki síður þekktur fyrir spunerí í flóanum fór mikinn. Áður hef ég séð spilara úr þessu spila í lélegum uppsetningum á t.d. Xenakis verkum en ég hugsa að veskið hans göethe hafi fengið þessa menn til að æfa sig og þá virkilega sá maður hvað þeir geta. Hrikalegur kraftur í performansnum. Frekar flott verk, ég hefði samt skippað á geisladisk. Í þessu síðasta verki leið mér eins og ég væri á nútímatónlistarhátíð í Baden-Baden árið 1988. Allegro Sostenuto er nútímaverk, það er frá 1988. Gran Torso frá 1972 myndi ég ekki segja að væri nútímaverk. Það er bara mjög gott verk og var besta verk tónleikana.
Hann Helmut vinur minn er bara mjög fínn kall, talar mikið um lustir og menningu en vísaði á bug spurningum mínum um meintar vinstriöfgar í fyrri tíð. Aðspurður um það hvað honum fyndist um að fólk væri alltaf að herma eftir honum sagðist hann ekkert geta gert í því, nema það séu nemendur hans, þá bannar hann þeim það. Þetta virtist vera áþreifanlegt málefni. Hins vegar fer hann oft með nemendur sína í bíó svo þeir tjilli aðeins á pakkanum, til dæmis fór hann með einn hóp á Beavis and Butthead þarna um árið.