þriðjudagur

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
miðvikudagur, 09 júlí 2008
Þriðjudagur.

Förum aðeins fram í tímann. Í morgun á miðvikudagsmorgni fékk ég sms frá Davíð um að hann og Hans Thomalla vinur hans væru á nærliggjandi kaffihúsi í morgunmat. Seinna um daginn sagði Hans Thomalla við mig að Davíð hefði sent skilaboðin úr símanum sínum þannig að ég ætti að passa mig á því ef ske kynni að ég ætlaði að senda sms til Davíðs til að segja að Hans hefði verið með ömurlegt verk (skilurru). Hans vissi þó ekki að ég hefði verið leiðinlegur við hann í blogginu kvöldið áður en eins og ég hugsa þegar ég sé gagnrýnir eftir Röp eða Jónas Sen, öll umfjöllun er góð umfjöllun.

En þriðjudagurinn byrjaði einmitt á Hans Thomalla fyrirlestri sem bar þá undarlegu yfirskrift What is melody? Ég var dáldið seinn á þann fyrirlestur, hélt að hann hefði átt að byrja seinna og missti því aðeins af byrjuninni. Það tók mig því tíma að fatta hvað um var rætt, virkaði dáldið fljótandi og síðnúhyggjukennt að koma svona beint inn í. En í stuttu máli er það sem ég skyldi um melódíu sem hvað sem er sem maður gerir að melódíu. Í sumum tilfellum getur það bara verið röð hljóða eða beating púlsar eða álíka.

4 ung tónskáld kynntu svo verk sín fyrir gárungunum. Fyrst var það norskur vinur okkar frá U.N.M., hvað heitir hann aftur, þið þekkið hann þegar þið sjáið hann. Hávaxinn með gleraugu. Hann kynnti sig á þýzku og spilaði 3 mínútna „útvarpsinnsetningu.“ Flott agressíft verk sem var bara on og off í 3 mínútur, svo rifust ferneyhough og tsangaris við hann um hugtakið útvarpsinnsetning, sem var ekki honum að kenna, hann var bara pantaður. Er fólk reiðara þegar það talar á þýzku?

Næsta unga tónskáld var kanadamaður sem var með mjög hljóðlátt verk sem var allt að því melódískt en víst byggt á yfirborðskenndum spektral pælingum. Hann talaði úr manni áhugann með tilgerðarlegri Kafka tilvitnun og hugtökum eins og “self-degration” og “thesis, thesis, thesis but not arsis” og hélt sig á bókmenntafræðilegum nótum. Þýðandi var að reyna að skilja hvað hann meinti svo hann gæti þýtt yfir á þýzku, og þá sagði sjálfur Ferneyhough: „vandamálið er bara það að við skiljum ekkert hvað þú ert að segja á neinu tungumáli.“ Drengurinn talaði sjálfan sig í hel ekki náðist almennilega að ræða sjálft verkið út af vitleysunni sem drengurinn sagði.

Þá næst kom Ísraelsk stelpa sem er búinn að vera að læra hjá chayu chernowin í vín og spilaði brot úr löngu verki með dáltið opinni nótasjón. Þetta var svona línuleg opin nótasjón, semsagt frekar venjuleg með mjög miklu gerðu bara eitthvað svona og haltu áfram með þetta. Verkið var fínt en nótasjónin sem slík var ekki skilvirk fyrir það sem hún ætlaði sér, sagði hún. Útfrá því var farið í klisjukennda umræðu um „aðra nótasjón“ byggða á vantrú og vanþekkingu en ráðleggingar sem voru góðar. Ferneyhough kom með þá pælingu að ef maður gefur almennar skýringar til hljóðfæraleikara þá verður útkoman almenn en ekki nákvæm og/eða á ákveðinn hátt (e. specific). Ef að hljóðfæraleikarnir eru þar að auki almennir hlýtur það að sjálfsögðu að vera rétt. En þetta átti svo sem vel við þá nótasjón sem átti í hlut.

Ungtónskáldakynningin endaði svo á leiðinlegu þýzku söngverki eftir eitthvern gaur sem er að læra hjá Spahlinger. Mjög vont svona „nútímaeinsöngvarakórverk.“ Illindi. Kennararnir gagnrýndu textameðferð hans. Ég skildi ekki textann hvort eð er og fannst verkinu ekki við bjargandi.

Eftir hádegi kíkti ég inn í pínulítið herbergi þar sem 20 manns höfðu troðið sér inn til að heyra Marco Stroppa skoða verk þáttakennda fyrir allra augum og krítísera. Hann tók fyrir Aubrey, vinkonu okkar Davíðs frá Buffalo, en hún var með verk fyrir blásarasveit. Verkið hafði ekki verið spilað og var því bara til á nótum og í mídí útgáfu. Hún fór ekki að ráðum Davíðs og spilaði verkið í midi-útgáfunni fyrir viðstadda, svo sem fínt, gaf grófa hugmynd af þessu en alls ekki nógu fínt fyrir fólk sem sást kíma felulega í horni (svona er stemningin, óhóflega mikið af fólki sem er betra en allir hinir). Marco var skilvirkur og skýrorður, eins og í fyrirlestri sínum. Hafði miklar tillögur og pælingar sem snertu útsetningar. Hann er mjög skilvirkur og beinn í tali. En það var svo þröngt um mann að ég varð að beila eftir þessa kynningu og fór þess í stað á trompet kynningu.

Fyrrum trompetleikari Ensemble Modern, Eitthvað Foreman talaði um trompet, skort á trompetpörtum í glænýrri kammermúsík, og gagnrýndi ásýnd tónskálda á hljóðfæraleikara sem vélar og að líta á tækni framlengingartækni kunnáttu þeirra sem eins konar símaskrá. „Hvað geturðu spilað hátt“ eða „hvað geturðu glissað langt“ er álíka og að spyrja tónskáld „Hvað geturðu samið mörg hljómsveitarverk, á næstu mánuðum“, „geturðu samið fyrir mig strengjakvartett sem sirka 80% pizzicato og 20% míkrótónal gliss“. Skemmtileg ádeila sem var kannski miðuð að Lachenmann epygogunum eins og Lachenmann kallaði þá. Hann hafði margt sniðugt að segja, útskýrði starf sitt, finnst það oft vera misskilið. Útskýrði hvernig tæknileg atriði breytast eftir samhengi og reyndi að útskýra bara hvernig trompetleikari hugsar, hvað hann gerir og hvernig hann nálgast efniviðinn. Spilaði ýmsa fræga búta úr Scelsi, Harvey, Stockhausen, Erickson og að sjálfsögðu Mahler til að sýna hvernig hlutir eru spilaðir miðað við hvernig þeir eru skrifaðir. Fínt bara.

Svo voru tvennir tónleikar, fyrri klukkan 17 og seinni klukkan 20.30. Ja hérna jæja.

Fyrri tónleikarnir voru 2 blokkflautu og koto dúettar, 2 harmóníkkusóló, og eitt tríó fyrir allt önnur hljóðfæri. Þetta voru svokallaðir kennaratónleikar, hljóðfærakennarar af hátíðinni að sýna sig. Byrjað var á Koto og blokkflautu dúett eftir Klaus Lang sem var æðislegur. Aðallega þögn og kontrabassablokkflautan lék svona tvær nótur um það bil. Handhafi typpahauskúpunnar frá deginum áður, hann Brice Pauset átti ágætis verk fyrir sólóharmóníkku sem virtúósinn Teodoro Anzelotti flutti af mikilli natni. Skemmtilegur krampi. Svo kom tokkata fyrir blokkflautu og koto eftir Misato Mochizuki, rosalega vel skrifað verk, flott í formi, aðgengilegt, þó ekki óþarflega með svona skemmtilegum kototrixum og blokkflautan fékk alveg slatta af nótum í þetta skiptið. Jose Luis Tora orti annað harmóníkkusóló sem var mjög ánægjulegt í mín eyru en kannski ekkert gott verk, veit ekki, rennur dáldið saman við hitt harmóníkkuverkið í minningunni, en Anzelotti er bara geðveikur flytjandi og það var bara mjög ánægjulegt að heyra hann spila á dragspilið, hann hefði getað spilað bubba og það hefði verið fínt, grúv en enginn fílingur. Ég skil ekki hvað síðasta verkið var en það var bæði eftir Isabel Mundry og Brice Pauset, fyrir flautu fagott og selló. Bara svona lala. Flott spilað, vel skrifað fyrir hljóðfærin.

Seinni tónleikar kvöldsins voru sko ekkert slor. Bara Ensemble Recherche. Svaka grúppa. En þá fengum við aftur að heyra verk eftir Isabel Mundry. Mér fannst það bara mjög fínt. Svona fín nútímatónlist, fallegar vel ortar gestúrur, fílingur en ekki grúv. Gælir kannski aðeins við borgaralegan smekk en þó ekki. Innan rammans en mjög flott bara. Wolfgang Amadeus Rihm var með fokking alltof langt verk fyrir tvö tenór píanó. Kannski allt í lagi móment en ekkert æðislegt, fékk aulahroll í eitthverju sem ég túlkaði sem djasshljóma, voldugt og mikið verk, en bara frekar langt og leiðinlegt. En haldiði að það hafi ekki bara verið splæst í Stockhausen eftir hlé, ég skal nú bara segja ykkur það. Prozession frá 1967 sem er held ég alveg örugglega samið fyrir Stockhausen gruppuna, og er í hópi svona opnari verka Stockálfsins sem hann samdi sérstaklega fyrir sérþjálfaða hópinn sinn. Það var leikið á “period” hljóðfæri, gamlar sínusbylgjuvélar og þess háttar og hljóðfæri sem lítur út eins og harmóníkka en er í raun eitthvað skrýtið rafhljóðfæri innan í, ekki lengur framleitt, fæst á ebay. Svo var náttúrulega tamtam og míkrófónleikari og svo var bara dúndrað. Bara dúndur stuð verk og rosaleg spilagleði. Þetta var náttúrulega svaka retró síkadelía að heyra filterað tamtam skjótast fram og til baka milli fremri og aftari hátalara. Þrátt fyrir að verkið sé mjög opið og hafi verið unnið með sérþjálfuðu liði þá var það alveg að virka með þessum flytjendum. Ég skal þó ekki segja að ég þekki upprunalegu útgáfuna af þessu verki akkúrat, en ég þekki fílingin og það var hann sem skilaði sér í hávaða og djöfulgangi.

1 comment to þriðjudagur

Leave a Reply

  

  

  

You can use these HTML tags

<a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>