Laugardagur. Flækjufótur stígur á stokk.

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
mánudagur, 14 júlí 2008
Fyrirlestrar dagsins voru spjall um lífið á þýzku og því notaði ég tækifærið til að sofa út, þvo þvott og fara í sund. En á laugardeginum voru líka tveir tónleikar. Báðir með Arditti kvartettnum og báðir einungis með verkum eftir Brian Ferneyhough. Sennilega er að verða komið 30 ára samstarfsafmæli þessara pilta, en ætli allt upprunalega vesenið hans Ferneyhough hafi ekki gert krulla og félaga vel í stakk búinn til að frumflytja 100 verk á ári, full af kjaftæði og rugli. Maður gerði sig því klárann í að dýfa sér ofan í fjöllaga setbergs byggingar flækjumeistarans víðfræga. Þess bera að geta að fólk á hátíðinni er í ruglinu í kringum þennan mann, krýpur á kné og biður um eiginhandaráritanir.

Á fyrri tónleikunum var flutt svokölluð sónata fyrir strengjakvartett sem flóki burknason samdi aðeins 24 ára að aldri. Flott en dáldið gamaldags, fannst mér, svona á yfirborðinu. En langt verk (ég sofnaði líka smá). Á seinni tónleikunum var hins vegar boðið upp á strengjakvartetta, svokallaða, númer 2,3,4 og 5. Strengjasveitin knáa var að leika kvartettana í 18. -99. skipti, takk fyrir. Bara eins og Maus á sínum tíma, alltaf að spila. Það var rosa stemning að dýfa sér svona ofan í ógæfuna, flækjast inn í fjórvíð völundarhús. Ég sat mjög framarlega og fékk þetta alveg í andlitið. Það er kannski eitthvað skrýtið við syrpukennda hegðun venjulegrar tónleikadagskrár eins og gengur og gerist og það var vel að hafa ekkert nema þetta á einum tónleikum. Það voru samt fyrsti og seinasti, 2.kvartett (1980) og sá fimmti (2006) sem ég hafði messt gaman af. Þar var messt hægt að heyra tengingar milli svipaðra efnisgerða í gegnum verkið, það er, stokkið milli svona blokka af efnistýpum sem eru aldrei eins en maður tengir saman þegar svipað yfirborð kemur aftur. Fjórði kvartettinn var líka svakalegur en þar var söngkona sem gekk til liðs með þeim og tók Fernelinn alveg í kernelinn. Hún fór á kostum gjörsamlega. Hún var einnig með handahreyfingar (þið vitið, „ómeðvitaðar“ í súrum nýflækjusöngnum sem notaðist við uppklippur á orðhlutum í ljóðum eftir Ezra Pound, En handahreyfingarnar voru mjög flottar og minntu á uppahálds söngvarann minn, japanska spunasöngvarann Mochigami Kosugi (kannski aðeins vitlaust stafstett).
Í rauninni er þessi bunki bara bálkur slagara. Bara aðgengilegt og skemmtilegt, algjört súkkulaði. Þetta er að sumu leyti minna kjaftæði en mig minnti, oft sem hljóðfærin koma öll saman í eitthvað dúndur og svona skýrleiki bara. Lítil ógæfa miðað við marga af nemendum hans eins og t.d. Richard Barrett sem er með virkilega ógæfu í gangi, en það er svona, ógæfumetin verða alltaf slegin. Það var æðislegt að sjá Arditti og félaga spilaði þetta, hreiðursólurnar voru ekki staglkennd kvöð heldur liðu þær áfram eins og fuglasöngur, mjög auðkennismiklir efnisbútar þrátt fyrir fáa viðmiðunarpunkta. Þá er bara að bíða eftir næsta kvartett sem er væntanlegur 2010 og vonandi að hann nái að semja fleiri en Bartok. Kannski 15 eins og Shostakovich? Tékkið samt á Mendelsohn í D-dúr. Nei ég er nú bara að grínast. Og þó, hver veit. Brahms annar, konfekt. Egg og salt. Geðveikt!

Leave a Reply

  

  

  

You can use these HTML tags

<a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>