Darmstadt-Stäbler býður í mat.

Written by Guðmundur Steinn Gunnarsson
laugardagur, 26 júlí 2008

Eftir tónleikana þar sem Davíð var með verk spjallaði ég við Gerard nokkurn Stäbler (vatnsglas-rödd, palli!?) sem átti verk sem baulað var á deginum áður. Ég var nú samt talsvert hrifinn af því verki ásamt öðrum verkum sem ég hef heyrt eftir hann. Hann ákvað að bjóða viðstöddum í mat og ræða listir og menningu. Það var áhugaverð umræða sem skapaðist um nýnasisma í Þýzkalandi og fótboltabullur og lustir og menningu í Þýzkalandi, Vesturheimi og Austurheimi, en bæði í Vesturheimi og Austurheimi hefur Stäbler dvalið langdvölum eða stuttdvölum.
Ég ynnti hann eftir mismunandi geirum og kimum í þýzkri nútímatónlist og hvort sumir kimar væru víðsfjarri í Darmstadtinu. Hann jánkaði því og sagði að tónlistin sín væri til dæmis ekkert sérstaklega “Darmstadt” og skil ég hvað hann meinar en var áhugavert í ljósi þess að hann átti þó tvö verk á hátíðinni. Hann benti á verk Robert Redgate frá deginum áður sem dæmi um eitthvað sem væri mjög Darmstadt (það vita allir hvað verið er að tala um, með fullri virðingu fyrir Robert Redgate og reyndar frábæru verki). Hann sagði að ákveðnar ættir af öfgakenndri performans art tónlist sem algengar væru í þýzkalandi væru víðs fjarri á Darmstadt en einnig ræddum við hina lágværu Wandelweiser og redúksjónismann sem má þó segja að hafi haft óbeinan fulltrúa, Klaus Lang. Stäblerinn sagði að „félagi“ sinn (elskhugi af ónefndu kyni) væri nú í þessu wandelweiser rugli en hann hafði flóknar tilfinningar gagnvart redúksjónismanum. Honum fannst þeir eiga til að taka niður fyrir sig í hljóðfæraleikurum og slíku og sagði mjög mikilvægt að þegar það eru fáar nótur þá verði þær náttúrulega að hljóma ótrúlega vel. Hann hafði líka efasemdir um ákveðna hugleiðslu pælingu sem ýjað er að í svona tónlist og þá um hvort nægilega mikil hugleiðsla fælist í svona tónlist miðað við þá sem taka hugleiðslu alvarlega og hversu vel tónlistin næði slíkum tilgangi ef það er þá tilgangur hennar (sem ég er ekki beinlínis viss um, en hann stendur þó óneitanlega nær þessu rugli öllu saman).
En þetta var einstaklega skemmtilegt spjall og hann hafði frá mörgu skemmtilegu að segja, hann hefur nokkrum sinnum hugsað sér að koma til Íslands í frí og ég sagðist mundu taka vel á móti honum ef svo færi.

Leave a Reply

  

  

  

You can use these HTML tags

<a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>