19. Maí kl. 20:00 í Hafnarhúsinu – LISTAHÁTÍÐ

Written by Páll Ivan Pálsson
sunnudagur, 04 maí 2008
Inselhopping eða Eyjastökk, er samvinnuverkefni Egils Sæbjörnssonar og Percusemble Berlin.

Percusemble Berlin bað átta tónskáld frá Írlandi, Berlín og Íslandi að skrifa fyrir sig ný verk árið 2007. Hugmyndin var að skapa umhverfi sem gæti endurskilgreint hinn hefðbundna ramma tónleikahalds og að reyna að færa áhorfendum eitthvað nýtt.

Egill Sæbjörnsson vinnur með umhverfið sem tónleikarnir fara fram í og þar að auki með hreyfingar og athafnir tónlistarmannanna. Hinn sjónræni hluti tónleikanna er ekki hugsaður sem undirleikur, heldur er hlutverk hans að mynda sterkan og sjálfstæðan kontrapúnkt við verk höfundanna og skapa þar með nýja möguleika á túlkun.

Á efnisskránni eru verk eftir írska tónskáldið Ed Bennett, Berlínartónskáldin Jeremy Woodruff og Helmut Zapf og íslensku tónskáldin Úlfar Haraldsson, Atla Heimi Sveinsson og Páll Ivan Pálsson. Í verkum Atla Heimis og Helmuts Zapf leikur Freyja Gunnlaugsdóttir einleik á klarínettu, en verk Atla var samið sérstaklega fyrir Freyju.

Percusemble Berlin er alþjóðlega viðurkenndur slagverkshópur sem sérhæfir sig í flutningi nútímatónlistar. Hópurinn, sem samanstendur af Martin Krause, Bernd Vogel, Prof. Sanja Fister og Hjörleifi Jónssyni, var stofnaður árið 1997 og hefur verið áberandi í tónlistarlífi Berlínarbúa allt frá upphafi. Percusemble Berlin hefur á síðustu tíu árum byggt upp viðamikla efnisskrá, leikið á tónlistarhátíðum um allt Þýskaland (Expo 2000, Musika Viva, Unerhörte Musik, Intersonanzen, Musikbiennale o.s.frv), leikið með hljómsveitum á borð við SWR Orchester í Kaiserslautern og unnið með tónskáldum á borð við Karlheinz Stockhausen, Henrik Strindberg, Georg Katzer og Helmut Öhring, svo að fáir einir séu nefndir. Frekari upplýsingar um Percusemble Berlin er að finna á síðunni www.percusemble.de.

Leave a Reply

  

  

  

You can use these HTML tags

<a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>