Sláturdúndur!

Fyrsta sláturdúndur ársins verður haldið með pompi og kringumstæðum laugarkvöldið 30.janúar klukkan 20:00 í kjallara Kaffi Kúltúra. Þar verður frumflutt glæný línuýsa ásamt annarri listrænt ágengri tónlist.

Hafir þú gaman af listrænt ágengri tónlist í frjálslegu samhengi er tilvalið að bregða undir sig betri fætinum og skella sér á Sláturdúndur.

Ókeypis aðgangur og stemming.

Jesper í tepokakasti

Upptökur af Nýjárstónleikum

Á nýjárstónleikum S.L.Á.T.U.R. 2010 sem haldnir voru í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsinu lék hljómsveitin Skmendanikka nokkur vel valin lög. Hér má heyra upptöku af viðburðinum.

Flytjendur voru Frank Aarnik, Róbert Sturla Reynisson og Sturlaugur Björnsson ásamt meðlimum S.L.Á.T.U.R.

Hrammdæla – Guðmundur Steinn Gunnarsson

Kindur – Páll Ivan Pálsson

Akrar – Hafdís Bjarnadóttir

5 – Strengja – Hallvarður Ásgeirsson Herzog

Þorkell Atlason

Gunnar Karel Másson

Ingi Garðar Erlendsson

Þráinn Hjálmarsson

307o – Áki Ásgeirsson

Blátt er líka fínt – Jesper Pedersen

NÝÁRSLEIKAR 2010!

Nýársleikar 2010Nýárstónleikar S.L.Á.T.U.R. verða haldnir í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu, laugardagskvöldið 9. janúar 2010 klukkan 20:00. Hljómsveitin Skmendanikka frumflytur ný íslensk tónverk fyrir ný íslensk hljóðfæri. Aðgangseyrir er 1000 krónur.

Um nýársleikana:

Nýársleikar S.L.Á.T.U.R. eru glæsilegir stórtónleikar þar sem áhersla er lögð á sérstakar hljóðfærasamsetningar og nýmæli í tónmenningu. Nýársleikarnir eru haldnir árlega en síðast voru haldnir tónleikar þar sem tíu fagottleikarar frumfluttu verk eftir jafnmörg tónskáld. Að þessu sinni mun nýstofnuð hljómsveit, Skmendanikka, flytja ný verk fyrir ný hljóðfæri sem nokkrir SLÁTURmeðlimir hafa sjálfir hannað á undanförnum árum. Hljómsveitin Skmendanikka samanstendur af þremur fjölhæfnisérfræðingum, þeim Frank Aarnink, Róberti Sturlu Reynissyni og Sturlaugi Björnssyni. Á tónleikunum leika þeir verk eftir framámenn, andófsmenn og austurrúmsmenn íslenskrar tónmenningar og munu þenja airwavesrör, þeyta þránófóna, skammhleypa þyriltrommum og skjóta hnitflugum.

Um hljóðfærin:

Hljóðfærin sem notuð verða á tónleikunum eru hönnuð á bilinu 2003-2009. Þráinn Hjálmarsson er hönnuður þránófónsins sem er e.k. vítahringsvél sem magnar upp eigintíðni mislangra röra. Einnig verða á tónleikunum langspil úr smiðju Guðmundar Steins Gunnarssoar en þau eru nútímaútgáfa af hinu þjóðlega íslenska langspili. Hljóðfæri Guðmundar eru rafræn og stillt í sérstakt réttstillikerfi (just intonation). Páll Ivan Pálsson er heilinn á bak við Airwaves-rörin sem hljómsveitin Hestbak sló í gegn með á tónlistarhátíðinni Airwaves 2006. Airwaves-rörin þykja kyngimögnuð enda fá hljóðfæri jafn djúpstemmd og áhrifamikil. Sleglaspil og millistykkjaspil Áka Ásgeirssonar eru bæði í raun blanda af hljóðfæri og rafrænum hljóðfæraleikara. Með þessum hljóðfærum er hægt að leika á hluti í umhverfinu eða önnur hljóðfæri með hjálp tölvu. Sleglaspilið slær taktvisst á nærliggjandi hluti en með millistykkjaspilinu er hægt að leika tónlist á algeng heimilistæki. Áki er einnig skapari þyriltrommunnar sem mun verða slegin á tónleikunum. Á tónleikunum verður einnig leikið á Sveiflugjafa Róberts Reynissonar sem er sannkallað undratæki. Þó svo að hljóðfærið sé örlítið og eigi sér bústað í gamalli blikkdós tekst því nær ávallt að framkalla syngjandi sveiflu með hjálp stillitakka, umhverfishljóða og ljósnema. Einstrengingur Magnúsar Jenssonar er þyngsta hljóðfærið á tónleikunum. Það er vegna þess að strengurinn í því er svo þykkur.

Um Skmendanikku:

Hljómsveitin Skmendanikka er sannkölluð ofurgrúppa. Hana skipa þrír sérlega fjölhæfir hljóðfæraleikarar sem hafa margoft leikið tónlist eftir SLÁTURmeðlimi. Hæfileikar þremenninganna felast fyrst og fremst í fjölhæfnisérhæfingu þeirra, þ.e.a.s. þeir kunna að leika á fjölmörg hljóðfæri sérlega vel. Frank Aarnink er oftast slagverksleikari og leikur á ótalmörg hljóðfæri með ótalmörgum hljómsveitum. Róbert Reynisson er oftast gítarleikari en hefur skotið upp kollinum í ýmsum óvæntum samhengjum. Róbert leikur með fjölmörgum ólíkum hljómsveitum, stundar margmiðlun í daglegu lífi og rafeindatækni. Sturlaugur Björnsson hefur lært og leikið á mörg ólík hljóðfæri s.s. franskt horn, kontrabassa, kontrabassaklarinett o.s.frv.. Sérhæfing Sturlaugs nær einnig út fyrir landamæri tónlistarinnar og inn á lendur gullgerðar og fagurdrykkjafræði enda starfar Sturlaugur nú sem ölsuðumaður hjá Agli Skallagrímssyni.

Efnisskrá nýársleika S.L.Á.T.U.R. 2010:

  • Guðmundur Steinn Gunnarsson – Hrammdæla, fyrir þránófóna og sveiflugjafa
  • Ingi Garðar Erlendsson – nýtt verk, fyrir tvö airwavesrör, þyriltrommu og einstrenging
  • Hallvarður Ásgeirsson Herzog – 5 Strengja, fyrir þyriltrommu, kantele, sveiflugjafa, langspil, airwavesrör og einstrenging
  • Páll Ivan Pálsson – Kindur, fyrir tvö klukkuspil og tvo þyriltrommuslegla
  • Þráinn Hjálmarsson – Ryþmaskúlptúr 5-2, fyrir millistikkjaspil, vasaljós, striga, ljóshunda og vasaljós
  • Hafdís Bjarnadóttir – Akrar, fyrir langspil, airwavesrör, þránófón og þyriltrommu
  • Þorkell Atlason – Hnit, fyrir tvo badmintonspaða, þránófón og tölvu
  • Gunnar Karel Másson – Followings II, fyrir þránófóna og frjálsa hljóðfærasamsetningu
  • Áki Ásgeirsson – 307°, frjáls hljóðfærasamsetning
  • Jesper Pedersen – Blátt er líka fínt!, fyrir airwavesrör, langspil og þyriltrommu

Um S.L.Á.T.U.R.:

Markmið S.L.Á.T.U.R. er að kynda undir nýsköpun í tónmenningu Reykjavíkur og nágrennis. Samtökin hafa verið leiðandi í menningarmótun tónlistar og verið sameiginlegur vettvangur ýmissa frumlegustu tónskálda Íslands. Starfsemin er fjölþætt og fyrir utan tónlistarviðburði halda samtökin uppi reglubundinni starfsemi í félagsaðstöðu sinni að Njálsgötu 14. Þar hefur almenningur aðgang að tónlist SLÁTUR meðlima og bókasafni SLÁTUR sem inniheldur sérfræðirit um listrænt ágenga tónlist. Síðasta föstudag hvers mánaðar halda samtökin óformlega tónleika undir nafninu SLÁTURDÚNDUR. Sjá á vefsíðu samtakanna: www.slátur.is

Útgáfutónleikar Hafdísar Bjarnadóttur

Hljómsveit Hafdísar

Rétt fyrir jól kom út geisladiskurinn Jæja með tónlist eftir rafgítarleikarann og tónskáldið Hafdísi Bjarnadóttur.

Ásamt Hafdísi leika 7 hljóðfæraleikarar á plötunni á eftirtalin hljóðfæri: blokkflautur, klarinett/bassaklarinett, trompet, fiðla/víóla, selló, rafgítar, bassi og trommusett.

Diskurinn Jæja er annar sólódiskur Hafdísar með tónlist eftir hana, en árið 2002 kom út geisladiskurinn á vegum Smekkleysu. Sá diskur fékk ágætis gagnrýni og þótti að mati sumra gagnrýnenda með bestu geisladiskum þess árs. Saman mynda þessir tveir diskar tvíeykið “Nú-Jæja“, en Jæja-diskurinn er e.k. sjálfstætt framhald Nú.

Að tilefni útgáfunnar verða útgáfutónleikar á Kjarvalsstöðum 4. janúar 2010 kl. 20:00.

(ath enginn posi)